Tveir sigrar í röð
Newcastle United fagnaði verðskulduðum 2:0-sigri gegn Nottingham Forest á St James’ Park í gær, þar sem Bruno Guimarães og Nick Woltemade tryggðu liðinu öll þrjú stigin með mörkum sínum í seinni hálfleik.
Liðið sýndi mikinn stöðugleika með öðrum sigri í röð eftir stórleikinn í Meistaradeildinni gegn Union Saint-Gilloise í vikunni. Newcastle hefur nú unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni og heldur áfram að sækja í sig veðrið eftir erfiða byrjun tímabilsins.
Þungur fyrri hálfleikur en sá seinni mun betri
Fyrri hálfleikurinn var fremur þungur og tíðindalítill. Joelinton fékk tvö góð færi snemma í leiknum eftir flott samspil við Dan Burn, Anthony Gordon og Kieran Trippier, en belgíski markvörðurinn Matz Sels, sem áður lék með Newcastle, varði vel í bæði skiptin.
Nick Pope þurfti einnig að vera vakandi þegar hann sló frá sér fasta aukaspyrnu frá Morgan Gibbs-White og staðan var markalaus í leikhléi.
Bruno með snilldarmark
Leikmenn Newcastle komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og eftir rúmlega klukkutíma leik kom loksins markið sem braut ísinn. Bruno Guimarães vann boltann af Gibbs-White, fékk sendingu frá Burn og skrúfaði hann fallega í fjærhornið fyrir framan Gallowgate-stúkuna.
Nottingham Forest reyndi að bregðast við, en leikmenn Newcastle vöru öryggir í vörninni. Sven Botman bjargaði á línu eftir skalla frá Chris Wood og Ryan Yates var nálægt því að jafna með skalla sem fór beint á Pope.
Woltemade byrjar með látum
Eftir það tók Newcastle aftur völdin. Sandro Tonali átti frábært skot sem Sels varði og stuttu síðar skaut Nick Woltemade í þverslána eftir horn. Þýski framherjinn tvölfaldaði síðan forystuna þegar hann var öruggur af vítapunktinum undir lok leiks, eftir að Guimarães hafði veirð felldur í teignum.
Woltemade skoraði þar með sitt þriðja mark í röð á St James’ Park og sitt fjórða í öllum keppnum síðan hann kom frá Stuttgart í sumar. Með þessu jafnaði hann goðsagnirnar Alan Shearer og Les Ferdinand, sem báðir skoruðu í sínum fyrstu þremur leikjum á heimavelli í úrvalsdeildinni.
Sterk staða fyrir landsleikjahléið
Nick Pope hefur nú haldið hreinu í fimm deildarleikjum þegar sjö umferðir hafa verið leiknar. Eftir sigurinn fer liðið í landsleikjahléið með góðan meðbyr, en liðið hefur unnið tvo leiki í röð, í bæði Meistaradeildinni og úrvalsdeildinni og virðist loksins finna taktinn á nýjan leik.
Svipmyndir úr leiknum