Ekkert fær stöðvað Newcastle – Stórsigur gegn Palace
Newcastle United vann 5:0 stórsigur gegn Crystal Palace á St James’ Park í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Newcastle hefur nú unnið sex leiki í röð í öllum keppnum og er komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 59 stig eftir 32 umferðir.
Aðstoðarþjálfarinn Jason Tindall og Graeme Jones stýrðu liðinu enn á ný í fjarveru Eddie Howe, sem er að jafna sig eftir lungnabólgu. Undir þeirra stjórn hefur liðið skorað níu mörk í síðustu tveimur leikjum og minnkað bilið við Arsenal, sem er í öðru sæti með 63 stig.
Newcastle byrjaði leikinn af miklum krafti og Alexander Isak fékk tvö góð færi áður en Jacob Murphy hamraði boltanum í netið úr ótrúlegu færi við nærstöng, 1:0.
Newcastle hafði yfirhöndina í fyrri hálfleiknum, en Palace fékk vítaspyrnu þegar Nick Pope missti af boltanum og lenti í varnarmanninum Chris Richards. Eftir skoðun í VAR-sjánni var dæmt víti, en Pope bætti fyrir mistökin og varði arfaslaka vítaspyrnu frá Eze.
Rúmum tveimur mínútum síðar jukust vandræði Palace enn frekar þegar fyrirgjöf Harvey Barnes fór af fyrirliða þeirra, Marc Guéhi, og í eigið mark, 2:0.
Vandræði Palace héldu áfram og urðu talsvert verri í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Barnes kláraði glæsilega með vinstri fæti eftir skyndisókn, 3:0. Fabian Schär skoraði síðan fjórða markið fyrir Newcastle með skalla eftir fyrirgjöf frá Murphy, 4:0.
Alexander Isak átti fleiri góð færi í leiknum og hefði getað skorað þrennu en Henderson varði frá honum snemma í seinni hálfleik. Markahrókurinn skoraði síðan loksins þegar hann skrúfaði boltann glæsilega í neðra hægra hornið með skoti fyrir utan teig eftir rúmlega klukkutíma leik, 5:0. Isak hefur nú skorað 24 mörk á leiktíðinni.
Magnaður leikur hjá okkar mönnum í kvöld. Það má því segja að ekkert fær stöðvað liðið okkar um þessar mundir.
Einkunnir frá Sky Sports
Newcastle: Pope (7); Trippier (7), Schar (8), Burn (7), Livramento (7); Joelinton (7), Tonali (7), Bruno G (7); Murphy (9), Isak (8), Barnes (9).
Varamenn: Willock (6), Gordon (6), Wilson (6), Longstaff (6), Krafth (n/a)