Það er aðeins eitt United – Fimmti sigurinn í röð
Newcastle United vann sterkan 4:1-heimasigur þegar liðið tók á móti Manchester United á St James’ Park í ensku úrvalsdeildinni í dag. Var sigurinn sá fimmti í röð í öllum keppnum.
Eddie Howe var ekki á hliðarlínunni í leiknum sökum veikinda og Jason Tindall stýrði liðinu í fjarveru hans. Engar breytingar voru á byrjunarliðinu frá síðustu leikjum;
4-3-3; Pope; Trippier, Schar, Burn, Livramento; Guimaraes, Tonali, Joelinton; Murphy, Barnes, Isak.
Varamenn; Dúbravka, Targett, Krafth (79’), Longstaff (85’), Miley (85’), Wilson (78’), Gordon (78’), Osula, Neave.
Newcastle virtist ætla að taka öll völd frá fyrstu mínútu. Liðið skoraði strax eftir 48 sekúndur þegar Joelinton kláraði vel í teignum. Markið var þó dæmt af vegna rangstöðu hjá Kieran Trippier, sem átti stoðsendinguna.
Jacob Murphy átti síðan þrumuskot rétt framhjá og gestirnir áttu í erfiðleikum með að halda í við kraftinn hjá Newcastle. Fyrsta raunverulega færi Manchester United kom eftir gott samspil sem leiddi til þess að Zirkzee átti skottilaun en Nick Pope varði vel yfir.
Alexander Isak átti skalla sem fór rétt framhjá eftir fyrirgjöf frá Guimarães. Hann átti síðan stóran þátt í fyrsta markinu með glæsilegri sendingu inn fyrir vörnina þar sem Tonali afgreiddi boltann viðstöðulaust í netið, 1:0.
Stuttu síðar reyndi Isak að bæta við en Bayındır í markinu varði tvívegis vel. Dan Burn, sem var sterkur í loftinu allan leikinn, náði góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Barnes, en boltinn fór yfir.
Það lifnaði aðeins yfir gestunum í lok fyrri hálfleiks. Eftir skyndisókn tók Diogo Dalot á rás í gegnum vörn Newcastle og renndi boltanum á Garnacho sem skoraði með laglegu skoti, 1:1.
En Newcastle byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og komst aftur yfir. Tino Livramento fór framhjá Dalot og sendi fasta sendingu á fjærstöng þar sem Murphy hélt boltanum inn á vellinum og átti frábæra fyrirgjöf fyrir markið. Þar var Barnes mættur og skoraði af stuttu færi, 2:1.
Eftir rúmlega klukkutíma leik skoraði Barnes sitt annað mark í leiknum. Það leit ekki út fyrir að vera mikið færi þegar Noussair Mazraoui rann til og missti boltann en Barnes tók af skarið, náði boltanum og tók sprettinn upp miðjuna og hamraði boltann upp í hægra hornið fyrir framan Gallowgate End-stúkuna. Stórkostleg afgreiðsla, 3:1.
Gestirnir áttu fá svör og Bruno Guimaraes gerði síðan endanlega út um leikinn þegar hann skoraði fjórða markið fyrir Newcastle. Markið kom eftir slæm mistök hjá markverði gestanna sem gaf boltann beint á Joelinton. Hann skallaði boltann á Guimarães sem kláraði færið af mikilli yfirvegun og tryggði öruggan 4:1 sigur.
Úrslitin þýða að Newcastle er komið upp í fjórða sæti deildarinnar með 56 stig og á leik til góða á Manchester City, Chelsea og Aston Villa sem koma í næstu sætum á eftir.
Næsta verkefni liðsins er á miðvikudaginn kemur þegar Crystal Palace kemur í heimsókn.