Enginn leikmaður er stærri en Newcastle United

Alexander Isak er mættur til æfinga hjá Newcastle United og það er í sjálfu sér jákvætt. En það svarar ekki þeirri spurningu sem brennur á vörum margra stuðningsmanna: Vill hann í raun vera hjá félaginu?

Fjarvera frá undirbúningi tímabilsins og æfingar hans á Spáni vöktu spurningar um stöðu hans hjá Newcastle. Eddie Howe, stjóri liðsins, hefur nú stigið fram og útskýrt málið. Hann sagði að hann hefði fyrst frétt af æfingum leikmannsins í gegnum fjölmiðla og undirstrikaði að þeir leikmenn sem hegðuðu sér ekki samkvæmt væntingum félagsins gætu átt von á að fá ekki að æfa með liðinu. Isak æfir því einn á æfingasvæðinu til að byrja með.

„Þú verður að öðlast réttinn til þess að æfa með okkur,“ sagði Howe í viðtali við Craig Hope hjá Daily Mail. „Við erum Newcastle United og leikmaður hefur þá ábyrgð að vera hluti af liðinu og hópnum. Þú verður að haga þér eðlilega því að enginn leikmaður getur hagað sér illa og búist svo við því að geta byrjað aftur að æfa með hópnum eins og ekkert hafi í skorist.“

Newcastle United er ekki einungis knattspyrnulið. Það er hjartað í samfélagi, spegilmynd borgar með djúpar rætur og sterk einkenni. Stuðningsmenn félagsins gera ekki aðeins kröfu um leikmenn sem gegna sínu starfi af skyldurækni, heldur leikmenn sem bera með sér sanna hollustu. Leikmenn sem líta á það sem heiður að klæðast treyju félagsins. Sem berjast ekki aðeins fyrir að ná úrslitum, heldur einnig fyrir merkið sem prýðir bringuna.

Alexander Isak hefur án efa sýnt mikla hæfileika og átt eftirminnilegar stundir á vellinum. En það eitt og sér nægir ekki ef viljinn til að vera hluti af liðinu er horfinn. Það verður augljóst þegar leikmaður mætir en er ekki raunverulega með. Ef hugurinn er annars staðar og metnaðurinn liggur utan félagsins, þá er niðurstaðan skýr: Þá á hann ekki lengur samleið með Newcastle United.

Félagið er á mikilli vegferð. Nú þarf það á leikmönnum að halda sem vilja byggja upp, ekki nýta sér félagið sem stökkpall. Það þarf leikmenn sem líta á leikdag sem hápunkt vikunnar, ekki skyldu.

Isak er mættur. En nú þarf hann að sanna að hann vilji vera hjá félaginu, ekki bara hjá því.

Pistlar á vefnum eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf stuðningsmannaklúbbsins.

Previous
Previous

Newcastle nær samkomulagi við Thiaw

Next
Next

Ramsdale orðinn leikmaður Newcastle