Félagið svarar Isak: „Enginn lofað því að hann megi fara“
Alexander Isak birti í gærkvöld færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum sínum með stöðu sína hjá Newcastle United. Hann sakaði félagið um að hafa svikið loforð og sagði traustið milli sín og félagsins hafa veikst.
„Þegar loforð eru svikin og traustið brostið getur samstarfið ekki gengið áfram,“ skrifaði hann og bætti við að breytingar væru í hag allra.
Félagið svaraði fljótt með opinberri yfirlýsingu. Þar kemur fram að Isak sé áfram samningsbundinn félaginu og að enginn starfsmaður hafi nokkurn tímann lofað honum að fara frá félaginu í sumar.
Félagið leggur áherslu á að það vilji halda sínum sterkustu leikmönnum en að allar ákvarðanir verði teknar með hagsmuni Newcastle United, liðsins og stuðningsmanna að leiðarljósi. Þá kemur fram að þau skilyrði sem nauðsynleg væru til sölu í sumar hafi ekki verið fyrir hendi og að ekki sé búist við að það breytist.
Yfirlýsing félagsins í heild sinni:
„Okkur þykir leitt að hafa þurft að sjá færslu Alexander Isak á samfélagsmiðlum í kvöld.
Við viljum taka af allan vafa um að Alex er enn samningsbundinn félaginu og að enginn forráðamaður Newcastle United hafi nokkurn tímann lofað því að hann gæti yfirgefið félagið í sumar.
Við viljum halda okkar sterkustu leikmönnum, en við skiljum jafnframt að leikmenn hafa sínar eigin óskir og við hlustum á þeirra sjónarmið. Eins og útskýrt hefur verið fyrir Alex og fulltrúum hans verðum við þó ávallt að taka ákvarðanir út frá hagsmunum Newcastle United, liðsins og stuðningsmanna. Við höfum verið skýr um að skilyrði sölu í sumar hafa ekki ræst.
Við teljum ekki líklegt að svo verði.
Newcastle United er stolt knattspyrnufélag með ríkar hefðir og við leggjum áherslu á að halda í þá fjölskyldustemningu sem hér ríkir. Alex er áfram hluti af þessari fjölskyldu og verður velkominn aftur um leið og hann er tilbúinn að sameinast liðsfélögum sínum.“