Isak stígur fram: Segir loforð hafa verið svikin
Alexander Isak hefur í kvöld gefið út opinbera yfirlýsingu þar sem hann tjáir sig í fyrsta sinn um framtíð sína hjá Newcastle United. Þar segir hann að loforð hafi verið svikin af hálfu félagsins og að traustið sé horfið.
„Þegar loforð eru svikin og traust er brostið getur sambandið ekki haldið áfram,“ segir Isak meðal annars í færslu sem hann birti á Instagram-síðu sinni. Hann tók fram að hann hafi haldið sér til hlés lengi á meðan aðrir hafi sagt sína útgáfu af atburðarásinni, en nú sé komið að honum að skýra sína afstöðu.
Yfirlýsingin kemur á sama kvöldi og enska knattspyrnusambandið heldur verðlaunahátíð sína, PFA Awards, en Isak mætti ekki á athöfnina þrátt fyrir að hafa verið valinn í úrvalslið tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.
Í yfirlýsingunni skrifar Isak:
„Ég er stoltur af því að vera viðurkenndur af leikmönnum deildarinnar með sæti í úrvalsliði PFA í ensku úrvalsdeildinni 2024/25.
Fyrst og fremst vil ég þakka liðsfélögum mínum og öllum hjá Newcastle United sem hafa stutt mig á leiðinni.
Ég er ekki á hátíðinni í kvöld. Með allt sem er í gangi fannst mér ekki rétt að vera þar.
Ég hef þagað lengi á meðan aðrir hafa talað. Sú þögn hefur gert fólki kleift að setja fram sína eigin útgáfu af atburðum, jafnvel þó að það viti að hún endurspegli ekki það sem var í raun sagt og samið um bak við luktar dyr.
Staðreyndin er sú að loforð voru gefin og félagið hefur lengi vitað af minni afstöðu. Að láta sem þessir hlutir séu að koma upp núna er villandi.
Þegar loforð eru svikin og traust er horfið getur sambandið ekki haldið áfram. Þangað er komið fyrir mig núna og þess vegna tel ég breytingar vera í þágu allra, ekki bara fyrir mig sjálfan.“