Newcastle að undirbúa nýtt tilboð í Strand Larsen
Newcastle United hyggst senda inn þriðja tilboð sitt í norska framherjann Jørgen Strand Larsen á næstu dögum. Wolves hefur þegar hafnað tveimur tilboðum, upp á 50 og 55 milljónir punda, en nú er reiknað með því að Newcastle hækki tilboðið í 60 milljónir punda.
Strand Larsen skoraði tvö mörk í dramatískum sigri Wolves á West Ham í deildabikarnum í vikunni og sýndi þar hversu mikilvægur hann er fyrir lið Vítor Pereira. Félagið festi kaup á honum í sumar fyrir 23 milljónir punda eftir farsælt lán frá Celta Vigo og vill ekki missa hann nema fyrir mjög hátt verð.
Newcastle glímir við vandræði í fremstu línu þar sem framtíð Alexander Isak er í lausu lofti og Callum Wilson hefur þegar yfirgefið félagið. Eddie Howe, stjóri liðsins, telur Strand Larsen henta vel í sitt leikskipulag og vill fá hann inn áður en félagaskiptaglugginn lokar um næstu helgi.
Leikmaðurinn sjálfur er sagður opinn fyrir skiptum og heillast af tækifærinu til að spila í Meistaradeildinni. Nú er spurning hvort nýja tilboðið verði nægilega hátt til að sannfæra Wolves um að láta sinn mikilvægasta framherja fara.