Stórtíðindi: Woltemade að ganga til liðs við Newcastle
Framherjaleit liðsins hefur tekið nýja stefnu og allt bendir nú til þess að stórkaup séu í höfn.
Samkvæmt Daily Mail og fleiri áreiðanlegum heimildum í Þýskalandi hefur Newcastle gert samkomulag við Stuttgart um kaup á þýska landsliðsmanninum Nick Woltemade. Kaupverðið er sagt nema yfir 80 milljónum evra auk árangurstengdra greiðslna.
Gert er ráð fyrir að leikmaðurinn fari í læknisskoðun á næsta sólarhringnum og hefur hann þegar samþykkt langtímasamning við félagið.
Félagskiptamógúllinn Fabrizio Romano hefur jafnframt greint frá því að samkomulag sé í höfn og fullyrðir það með frasanum sínum „Here we go!“
Woltemade, sem er 23 ára og 198 sentimetrar á hæð, skoraði 17 mörk í 33 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og var einn af áberandi leikmönnum á Evrópumóti U21.
Hann hefur verið orðaður við Bayern München í sumar en virðist nú velja Newcastle þar sem keppnin um sæti í þýska stórliðinu er hörð.
Kaupin væru kærkominn styrkur fyrir Newcastle eftir að viðræður við Wolves um Jørgen Strand Larsen runnu út í sandinn. Woltemade yrði metinn sem stærstu kaup félagsins um langt skeið og gæti orðið lykilmaður í baráttunni við toppfélögin á Englandi og í Meistaradeildinni.