Svíar standa með Isak – „Leikur ræningja og braskara“
Í Svíþjóð ríkir skilningur á áformum Alexander Isak um að ganga til liðs við Englandsmeistara Liverpool. Helstu fréttamenn og sérfræðingar landsins telja óánægju hans hafa safnast upp með tímanum og að hann leiti nú skýrra svara um framtíðina.
Olof Lundh hjá Fotbollskanalen setur málið í stærra samhengi. Hann bendir á að félög noti gjarnan umboðsmenn til að koma leikmönnum frá sér og að lítið sjáist af því sem gerist á bak við tjöldin. „Þetta er leikur ræningja og braskara,“ sagði hann.
Í Expressen og Aftonbladet er áréttað að þrýstiaðgerðir leikmanna séu orðnar hluti af nútímafótbolta. Starfsævin sé stutt og tækifærin fá, þannig að skiljanlegt sé að leikmenn reyni að flýta málum þegar loforð standast ekki.
Sænska ríkissjónvarpið, SVT, varar hins vegar við því að langdregin pattstaða geti dregið úr leikformi og undirbúningi leikmannsins og þannig haft áhrif á sænska landsliðið, sem stefnir að því að komast á heimsmeistaramótið á næsta ári.
Gagnrýni heyrist þó einnig. Johan Esk hjá Dagens Nyheter minnir á að langir samningar skuldbindi báða aðila og að fjarvera frá æfingum geti skaðað traust innan liðsins.
Að lokum greindi Sportbladet frá afstöðu Michael Owen, en hann er meðal fárra enskra sérfræðinga sem hafa tekið upp varnir fyrir Isak.