Barnes sá um Manchester City
Newcastle United tryggði sér mikilvægan 2:1-sigur á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn var opinn og skemmtilegur og stóðu heimamenn af sér pressu gestanna á lokamínútunum.
Fyrri hálfleikur var markalaus en þar fengu bæði lið fjölda góðra tækifæra. Newcastle hóf leikinn af miklum krafti og komust Nick Woltemade og Harvey Barnes í álitleg færi sem Gianluigi Donnarumma varði af öryggi. Manchester City átti sínar hættulegu sóknir og komst Erling Haaland tvisvar í góðar stöður án árangurs, auk þess sem Phil Foden átti skot sem fór framhjá.
Varnarleikur beggja liða var traustur og markverðirnir stigu upp þegar þurfti, þannig að staðan hélst markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Heimamenn komust loks yfir á 63. mínútu þegar Harvey Barnes þrumaði knettinum í bláhornið eftir vel útfærða sókn og nákvæma sendingu frá Bruno Guimarães. Gestirnir svöruðu fimm mínútum síðar með föstu skoti úr teignum eftir hornspyrnu og virtist leikurinn þá geta þróast hvorum megin sem var.
Heimamenn endurheimtu forystuna skömmu síðar. Bruno Guimarães skallaði í slána og boltinn datt fyrir Barnes sem fylgdi á eftir í teignum og skoraði af stutu færi. Eftir langa VAR-skoðun á hugsanlegri rangstöðu var markið að lokum látið standa.
Manchester City sótti af krafti á lokamínútunum og voru átta mínútur bættar við leiktímann, en heimamenn stóðu vörn sína af festu og héldu forystunni allt til loka. Sigurinn er aðeins annar sigur Newcastle gegn Manchester City í úrvalsdeildinni á síðustu 25 árum og jafnframt hundraðasti sigur Eddie Howe sem knattspyrnustjóri félagsins.
Newcastle er nú í 14. sæti með 15 stig eftir ellefu umferðir og næsti leikur liðsins er gegn Marseille næsta þriðjudag í Meistaradeild Evrópu.
Byrjunarliðið Pope – Livramento, Thiaw, Schar, Hall – Tonali, Bruno Guimaraes, Joelinton – Murphy, Woltemade, Barnes
Varamenn: Ramsdale, Ruddy, Botman (77’), Elanga (85’), Willock (85’), A.Murphy, Ramsey, Neave, Miley
Svipmyndir koma inn síðar

