David Hopkinson ráðinn framkvæmdastjóri

David Hopkinson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Newcastle United og tekur hann við starfinu af Darren Eales, sem sagði af sér vegna heilsufarsástæðna.

Hopkinson kemur með yfir 25 ára reynslu úr íþróttaheiminum. Hann stýrði áður rekstri New York Knicks og New York Rangers hjá Madison Square Garden Sports, var yfirmaður samstarfssamninga hjá Real Madrid og hafði lykilhlutverk í tekjuöflun Toronto Maple Leafs og Toronto Raptors.

„Newcastle er einstakur klúbbur með magnaða sögu og ástríðufulla stuðningsmenn. Ég er spenntur fyrir því að taka þátt í næsta kafla og koma félaginu í hóp þeirra bestu í heiminum,“ sagði Hopkinson þegar hann var kynntur til leiks.

Yasir Al-Rumayyan, stjórnarformaður Newcastle, segir nýja framkvæmdastjórann frábæra viðbót við félagið. „Reynsla hans og hæfni til að byggja upp árangur á heimsvísu er einmitt það sem við þurfum á þessum tímamótum,“ sagði Al-Rumayyan.

Hopkinson hóf störf 5. september og hefur þegar hitt starfsfólk félagsins og skoðað aðstöðuna hjá aðalliðinu, akademíunni og kvennaliði Newcastle.

Next
Next

Wissa orðinn leikmaður Newcastle