Wissa ekki klár í slaginn – Woltemade gæti þreytt frumraun sína
Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, hélt blaðamannafund í dag þar sem hann fór yfir stöðuna fyrir leikinn gegn Wolves á St James’ Park á morgun. Þar staðfesti hann að Yoane Wissa og Jacob Ramsey yrðu ekki með vegna meiðsla.
Wissa, sem samdi við Newcastle á lokadegi félagaskiptagluggans, varð fyrir hnémeiðslum með landsliði Kongó í byrjun vikunnar og verður að bíða með frumraun sína. Ramsey, sem kom frá Aston Villa í sumar, tognaði á ökkla í jafnteflinu gegn Leeds í síðasta mánuði og verður frá fram yfir næsta landsleikjahlé. „Það er erfitt að missa Jacob á þessum tímapunkti,“ sagði Howe.
Betri tíðindi eru af Joelinton sem hefur jafnað sig af meiðslum og er klár í slaginn. Þá gæti þýski framherjinn Nick Woltemade, sem keyptur var frá Stuttgart fyrir metfé, stigið sín fyrstu skref með liðinu um helgina. Howe lýsti ánægju með framfarir hans á æfingasvæðinu og sagði hann hafa fallið vel inn í hópinn.
Howe hrósaði jafnframt nýjum framkvæmdastjóra félagsins, David Hopkinson, sem tók við í síðustu viku, og undirstrikaði að miklar áskoranir biðu liðsins. „Við eigum sjö leiki á næstu 23 dögum. Það verður krefjandi en er jafnframt tækifæri fyrir allan hópinn að sýna styrk sinn,“ sagði hann.