Elanga orðinn leikmaður Newcastle

Sænski knatt­spyrnumaður­inn Anthony Elanga er loks orðinn leikmaður Newcastle United, en hann kem­ur til fé­lags­ins frá Nottingham Forest á 55 millj­ón­ir punda.

Hinn 23 ára gamli Svíi, landsliðsfélagi Alexander Isak, kom til Nottinham Forest sumarið 2023 og hefur síðan leikið yfir 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Elanga kom upp í gegnum unglingastarf Manchester United og lék sinn fyrsta keppnisleik fyrir félagið í maí 2021, þar sem hann skoraði einnig sitt fyrsta úrvalsdeildarmark.

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, var að vonum virkilega ánægður að tryggja sér loksins þjónustu Elanga.

„Ég er mjög ánægður með að fá Anthony Elanga til Newcastle. Hann var lykilskotmark okkar og því ánægjulegt að hafa tryggt okkur hann svona snemma á undirbúningstímabilinu.

Hann er spennandi leikmaður með eiginleika sem gera hann að einstöku sóknarvopni. Hraði hans, kraftur og hæfileikar til að búa til og skora mörk munu styrkja liðið og falla vel að okkar leikstíl,“ sagði Howe.

Anthony Elanga er sjálfur spenntur og getur ekki beðið eftir því að byrja nýjan kafla á ferlinum.

„Ég er spenntur, mjög ánægður, en það mikilvægasta er að ég er tilbúinn. Ég er tilbúinn að klæðast þessari svarthvítu treyju, að berjast fyrir þetta lið og gefa allt fyrir þessa ástríðufullu stuðningsmenn sem lifa og hrærast í fótbolta.

Ég vil tileinka mér menninguna og DNA félagsins. Ég er virkilega ánægður með að vera kominn og get ekki beðið eftir að byrja,“ sagði Elanga.

Next
Next

Tilbúnir að gera Isak að launahæsta leikmanni Newcastle