Enn og aftur markalaust á útivelli

Newcastle United fór á suðurströnd Englands í dag þar sem liðið gerði markalaust jafntefli við Bournemouth á Vitality-leikvanginum. Þetta var þriðja markalausa jafntefli liðsins í röð á útivelli í ensku úrvalsdeildinni.

Eddie Howe gerði heilar sjö breytingar frá tapinu gegn Barcelona í Meistaradeildinni í vikunni. Malick Thiaw lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði frá því hann kom frá AC Milan og Lewis Hall fékk einnig sinn fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni síðan í febrúar.

Vörnin stóð sína plikt og Nick Pope þurfti aðeins að verja tvö skot í leiknum, þar á meðal frábæra tilraun frá Justin Kluivert í uppbótartímanum í seinni hálfleik.

Newcastle var hins vegar ekki sannfærandi fram á við. Jacob Murphy komst næst því að skora í fyrri hálfleik en skot hans var varið af Djordje Petrovic. Nick Woltemade átti mögulega að fá dæmda vítaspyrnu þegar togað var í treyjuna hans í teignum, en dómari leiksins dæmdi ekkert.

VAR kom einnig við sögu þegar mark Bournemouth var dæmt af vegna rangstöðu eftir rúmt korter, en annars voru færin af skornum skammti.

Stuðningsmenn geta þó glaðst yfir því að Jamaal Lascelles er mættur aftur á völlinn eftir langvarandi meiðsli og lék sínar fyrstu mínútur í deildinni síðan í febrúar á síðasta tímabili.

Newcastle er sem stendur í 13. sæti deildarinnar með sex stig eftir fimm umferðir, en næsti leikur er á St James’ Park þegar Bradford kemur í heimsókn á miðvikudaginn kemur í enska deildabikarnum.

Svipmyndir koma inn síðar.

Next
Next

Hetjuleg barátta en Barcelona hafði síðasta orðið