Ferðasaga Newcastle klúbbsins á Íslandi til mekka – Apríl 2025
„WE see united—now f* off home“
Það var hástemmt andrúmsloft á Keflavíkurflugvelli þegar 30 óhræddir stuðningsmenn Newcastle United á Íslandi, með örfáa utanaðkomandi aðila ásamt formanni flokksins í broddi fylkingar, hófu vegferð sína í gegnum Glasgow – með eitt markmið: St James’ Park og sigur.
Ferðin var skipulögð af Newcastle-klúbbnum á Íslandi í samstarfi við ferðaskrifstofuna Visitor. Í fararbroddi var Leon Pétursson – með sína einstöku, óviðjafnanlega skemmtilegu nálgun á fararstjórn, sem leiddi hópinn gegnum þessa ógleymanlegu ævintýrahelgi. Með honum í för var Gísli Aðalsteinsson, hinn eiginlegi vængmaður – eða Robin við Leons Batman. Báðir hefðu þeir getað unnið Óskarinn fyrir hlutverk sitt sem „traustir leiðtogar með rauðan og hvítan klósettpappír í vasanum.“
Aftari röð frá vinstri: Birgir Pétur Þorsteinsson, Ólafur Sindri Helgason, Eyjólfur Flóki Freysson, Freyr Eyjólfsson, Gísli Aðalsteinsson, Þorgils Torfi Jónsson, Sigurður Ágúst Jónsson, Davíð Örn Sigurðarson, Kristinn Bjarnason, formaður klúbbsins. Fremri röð frá vinstri: Dröfn Árnadóttir, Gísli Már Gíslason, Guðni Guðnason, Kolbrún María Björgvinsdóttir, Guðjón Ólafur Guðmundsson, Árni Þórhallsson, Brynja Marteinsdóttir, Kristinn Valur Wiium, Ásta Kristný Árnadóttir, Ruth Einarsdóttir, Bogi Pétursson, Ásgeir Sigurðsson, Sigurður Ásgeirsson og Leon Pétursson, fararstjóri. Á myndina vantar: Kolbein Reiginsson, Ingveldi Margéti Kjartansdóttur og Huginn Goða Kolbeinsson.
Fræðsla og stemning í rútunni
Við lendingu í Skotlandi beið okkur rúta og úr hópnum steig fram maður sem virtist vera klár í að deila þekkingu sinni, Gísli Már Gíslason, sem bjó og stundaði nám í Newcastle á árunum 1973–1977, gjörsamlega tældi okkur inn í tímaflakk sem blandaði sögu borgarinnar, liðins tíma og eigin ævi. Hann gerði meira en að halda okkur vakandi í þriggja tíma rútuferð; við fengum „Newcastle 101“ kennslu, með staðreyndum sem ættu að vera prentaðar í bók og dreift á öll heimili í öllum heiminum.
Hetjan fær hér með viðurnefnið The Geordie Whisperer og boð í næsta hlaðvarpsþátt klúbbsins—Allt er svart og hvítt.
Hjónin frá Patreksfirði
‘The Geordie Whisperer’, Gísli og Dröfn, kona hans.
Föstudagskvöld og fyrstu bjórarnir
Eftir innritun á Leonardo-hótelinu dreifðist hópurinn í ýmsar áttir: sumir tóku rólega byrjun á ferðinni og fóru í menningarferð um borgina fögru á meðan aðrir héldu rakleitt inn í miðbæinn þar sem pöbbar, pintar og steikur tóku á móti hópnum með opnum örmum barþjóna.
Strax fór fólk í ferðinni að tengjast, mynda vináttu og skapa minningar sem munu lifa um ókomna tíð.
@nufciceland Newcastle vs. Manchester United. Mjög góður dagur held ég barasta 😁 #newcastle #geordie #iceland #fyp #nufc #hwtl #newcastleunited #nufcfans ♬ suono originale - swami
Laugardagur og snoozefest í sunderland
Hluti hópsins lagði leið sína yfir Tyne-fljótið og heimsótti Sunderland – þessa dapurlegu borg sem virðist sífellt reyna að slökkva síðasta neistann. Þó tókst okkur að hlæja og gráta á sama tíma—á niðurníddum leikvangi og hálftómum velli, þar sem heimamenn biðu lægri hlut gegn Swansea í einstaklega lélegum fótboltaleik. Bjórinn var vondur, maturinn enn verri. Sumir þökkuðu klósettinu fyrir að hafa bjargað deginum. Einn úr hópnum lýsti upplifuninni sem „andlegri hreinsun með tónlist í bakgrunni“. Það var bæði fyndið og súrrealískt. Það var nefnilega Sunderland.
Þegar aftur í stórborgina var komið og eftir snarpa heimsókn á hinn breska Hana—eða Nando’s. Þá lauk kvöldinu á hótelbarnum góða. Þar mættu bakkabræðurnir Leon og Gísli Aðalsteins í rauðhvítum treyjum. Hvílíkur viðsnúningur! Þetta var skandall, leyndarmál og brandari í senn. Við höfum lofað að segja söguna í sérstakri hlaðvarpsútgáfu af ferðinni. Það eina sem við látum uppi að svo stöddu er að sagan er stórkostleg og stuðningsmenn Newcastle verða að heyra hana. Það var mikið hlegið—og lengi. Stay tuned.
Stóri dagurinn með Sól, strawberries og Shearer’s
Sunnudagsmorgunn. Sólin skein eins og það væri komið sumar. Spenningurinn fór stigvaxandi þegar hópurinn lagði af stað í átt að St. James’ Park, með viðkomu á „einungis fyrir stuðningsmenn Newcastle“ pöbb þar sem við íslensku gestirnir runnum auðveldlega inn—vel merktir, velkomnir eins og við værum sjálfir Shearer í dulargervi. Kolbeinn Regins fór fremstur í flokki eins og oft í ferðinni og stýrði hópnum. Og á hann var hlustað.
Minjagripabúðin “The Back Page” fékk hjörtun til að slá hraðar. Formaðurinn lýsti sjálfum sér sem „barni í sælgætisbúð“ – og réttilega, það gjörsamlega allt merkt félaginu.
The Back Page
minjagripabúð þar sem hægt er að fá allt.
sagan drýpur af veggjum strawberries
Því næst var komið við á Strawberries—hinum goðsagnakennda pöbb beint á móti St. James' Park. Um leið og við gengum inn tók andrúmsloftið völdin. Þetta var ekki bara pöbb—þetta var tímahylki fyrir alla sem að elska Newcastle United.
Á veggjunum héngu myndir, treyjur og plaköt frá liðnum tíma; saga liðsins lifði í hverju horni. Það var eins og við hefðum farið mörg ár aftur í tímann. Þar blöstu við okkur Shearer, Keegan og Sir Bobby—ekki bara sem hetjur á veggjum, heldur líka sem gamlir vinir sem virtust einfaldlega hafa beðið eftir okkur. Þvílík saga. Þvílík tilfinning.
Þarna ríkti ekki bara hefð. Heldur líka hlýja og kærleikur.
Shearer’s—helgidómur fyrir hetjur og stuðningsmenn
Á Shearer’s bar fór tónlistin að slá taktinn fyrir leikinn—og það var eins og hjarta stuðningsmanna færi að slá aðeins hraðar. Eftir langt stopp í verslun Newcastle United var farið í næsta rými. Þar safnaðist fólk saman; okkar hópur frá Íslandi, aðrir íslenskir stuðningsmenn sem höfðu komið út á eigin vegum. Allir undir sama þaki, með sama markmið: að hita upp fyrir daginn sem skiptir öllu máli.
En Shearer’s er meira en bara staður fyrir bjór og breskan morgunverð—þetta er helgidómur. Barinn ber nafn hins goðsagnakennda Alan Shearer, mesta markaskorara í sögu úrvalsdeildarinnar og sannkallaðrar táknmyndar Newcastle United. Shearer, sem fæddist í borginni, lék fyrir liðið af heilindum og hjarta—og skoraði með þeim krafti að hann veitti borginni von og stolti þegar mest þurfti. Eins og allir ættu að vita!
Á veggjunum má sjá ljósmyndir, treyjur og vitnisburði um feril mannsins sem lyfti öxlum borgarinnar með hverju einasta marki. Þar inni er maður ekki bara áhorfandi, maður verður hluti af sögunni. Þarna ríkti stemning og eftirvænting.
Formaðurinn var boðaður á VIP-svæði þar sem rætt var um framtíðarsamskipti milli Newcastle United og íslenska klúbbsins. Fulltrúar danska stuðningsmannaklúbbsins voru einnig á staðnum og upplýstu okkur um að þeir væru með um 200 skráða meðlimi. Harla fleiri en við á Íslandi. Tengsl þeirra við félagið eru sterk og náin og það er ljóst að við ættum að fylgja þeirra fordæmi og byggja upp öflugt samstarf.
Til umræðu er að stuðningsmannaklúbbar Newcastle á Norðurlöndunum komi sér saman og vinni sameiginlega að verkefnum í framtíðinni.
Viðræður íslenska klúbbsins við félagið gengu afar vel og verða haldið áfram á næstu vikum og mánuðum.
Formenn ásamt félögum
Bjarne Lohse, formaður stuðningsmannaklúbbs Danmerkur ásamt tveimur félögum sínum og Kristni, formanni klúbbsins á Íslandi.
Sir Bobby Robson Collection á St’ James Park
Að sama skapi í kjölfarið hitti formaður klúbbsins sömuleiðis stjórnendur hlaðvarpsþáttanna “Loaded Mags”.
formaður klúbbsins MEÐ stjórnenduM LOADED MAG
Þessi fullkomni dagur
Newcastle 4 – Man UTD 1
Þvílíkur draumur. Rafmögnuð stemning, stórkostleg spilamennska og sigur sem mun lifa í minningunni um ókomin ár. Þó að hópurinn væri að huta til dreifður um leikvanginn var eins og allur hópurinn sæti saman, svo mikil var tengingin.
Þetta var frábær leikur í alla staði og stórkostleg stemning á vellinum.
Það má lesa nánar um leikinn frá fréttaritara klúbbsins inni á https://www.nufc.is/frettir/a-er-aeins-eitt-united-fimmti-sigurinn-r
„Lengi lifi kóngurinn”
Athygli vakti að Wor Flags hafði útbúið stóran og flottan fána til heiðurs okkar ástkæra King Kevin Keegan.
Pakkaður völlur og fáni Keegans blasti í Gallowgate.
Eftir leik var snúið aftur á Shearer’s og þar tók plötusnúðurinn sjálfur til máls og öskraði í míkrafóninn:
„This one's for the Icelanders – HOWAY THE LADS!“
Við mikinn fögnuð gesta. Allir sem voru á leiknum og í fóru í ferðina höfðu á orði að þetta hafði verið stórkostleg skemmtun.
Fjölskylda á vellinum
Kolbeinn, Huginn og Ingveldur.
Síðasta kvöldinu lauk á veitingastaðnum Little Como, þar sem lítill hópur ferðarinnar fékk óvænta upplifun. Þegar þjóninn sagði „því miður, við erum að fara að loka“ og hópurinn ætlaði að snúa við, þá fylgdi setningin „við ætlum ekki að rukka ykkur fyrir hlaðborðið“, þá þagnaði hópurinn í fyrsta sinn alla ferðina.
Ókeypis hlaðborð á exótískum erlendum veitingarstað. Maturinn var frábær, vináttan var djúp og við urðum öll svolítið mýkri (eins og yfirleitt þegar sá kaldi rann ljúft niður).
Tengsl, hlátur og björt framtíð
Ferðin var ekki bara ferð – hún var upplifun og minning. Fólk frá Ísafirði til Djúpavogs, Kópavogi til Egilsstaða voru öll í sama liði.
Allir félagarnir sem komu í ferðina fá miklar þakkir. Guðni Guðnason var einstaklega góður ferðafélagi formanns og miklar þakkir fara einnig til Leon Péturssonar og Visitors fyrir frábæra skipulagningu og leiðsögn. Leon—með smá kaldhæðni—er eins og „hinn íslenski Steve Bruce“. Skemmtilegur, skýr, kærleiksríkur og með ótrúlegt auga fyrir lausnum.
skemmtilega myndin
feðgarnir ásgeir og sigurður að fagna marki sandro tonali.
Skráðu þig á nufc.is/skraning og vertu hluti af samfélaginu
Að lokum vil ég hvetja ykkur öll sem enn eruð ekki skráð sem meðlimir í klúbbnum okkar til að fara inn á nufc.is/skraning og ganga til liðs við okkur. Með félagsaðild fylgja margvísleg fríðindi. Þar á meðal afslættir af hópferðum og önnur sérkjör sem við munum bjóða félagsmönnum upp á.
Einnig vil ég benda á hópsíðuna okkar á Facebook: facebook.com/groups/nufciceland – ef þið eruð ekki þar nú þegar, mæli ég með því að þið skráið ykkur inn og taki þátt í stemningunni.
Við erum líka með þrjá virka spjallhópa á Messenger:
Almennur hópur fyrir alla áhugasama
Sérstakur hópur fyrir félagsmenn klúbbsins
Og svo ferðarhópurinn þar sem við spjöllum um hópferðir og skipulagningu
Ef þið viljið vera með í einhverjum af þessum hópum, þá er bara að senda okkur póst á nufc@nufc.is og við bætum ykkur inn.
ÁFRAM NEWCASTLE – ÁFRAM ÍSLAND!
Takk innilega fyrir frábæra ferð, hlátur, minningar og ógleymanlega stemningu.
Þetta var algjörlega sturlað!
Formaður Newcastle klúbbsins á Íslandi
Kristinn Bjarnason
Ert þú með fleiri myndir úr ferðinni? Sendu þær á media@nufc.is
Myndir eru í eigu félaga í ferðinni.