Félagið í góðri stöðu til að eyða allt að 200 milljónum punda í sumar
Yasir al-Rumayyan, stjórnandi PIF og stjórnarformaður Newcastle United.
Newcastle United gæti varið allt að 200 milljónum punda í leikmannakaup í sumar, að mati sérfræðings í knattspyrnufjármálum.
Félagið komst nálægt því að brjóta reglur ensku úrvalsdeildarinnar um arðsemi og sjálfbærni (PSR) síðasta sumar, en forðaðist refsingu með því að selja leikmennina Elliot Anderson og Yankuba Minteh fyrir samtals 68 milljónir punda, til Nottinham Forest og Brighton & Hove Albion.
Félagið hefur nú gengið í gegnum þrjá félagaskiptaglugga án þess að fá til sín stór nöfn og í janúar veikist leikmannahópurinn enn frekar þegar Miguel Almiron fór til Atlanta United fyrir um 12 milljónir punda og Lloyd Kelly gekk í raðir Juventus á lánssamningi, þar sem kaupákvæði hefur verið virkjað upp á 20 milljónir punda.
Sala þessara leikmanna, ásamt því að fjárfestingarnar frá sumrinu 2022, þegar félagið lagði um 130 milljónir punda í leikmenn á borð við Nick Pope, Sven Botman og Alexander Isak, falla nú út úr þriggja ára PSR-útreikningi, hefur styrkt fjárhagsstöðuna verulega.
Hvað hefur félagið úr miklu að moða í sumarglugganum?
Í viðtali við Loaded Mag NUFC gaf Kieran Maguire, einn virtasti sérfræðingur Bretlands í fjármálum knattspyrnu, sitt mat á því hversu miklu Newcastle United gæti eytt í leikmannakaup í sumar. Með hliðsjón af núverandi fjárhagsstöðu félagsins og fjárfestingum undir stjórn núverandi eigenda, PIF, áætlar hann að félagið hafi svigrúm til að eyða á bilinu 150 til 200 milljónum punda.
„Ef við skoðum fyrstu þrjú árin undir stjórn PIF, þá eyddi Newcastle United 150 milljónum, svo 153 milljónum og að lokum 206 milljónum punda. Það dró úr eyðslu á tímabilinu 2024-25 vegna fjárhagsreglna, en ég geri ráð fyrir að félagið færist nú aftur í þann 150 til 200 milljón punda flokk,“ sagði Maguire.