Guimarães tryggði Newcastle sigur á síðustu stundu
Byrjunarliðið: Pope – Trippier, Thiaw, Botman, Burn – Miley, Guimaraes, Joelinton – Murphy, Woltemade, Gordon
Varamenn: Ramsdale, Schar (61’), Tonali (61’), Barnes (61’), Krafth, Osula (86’), Elanga (76’), Willock, Ramsey
Newcastle United vann dramatískan 2:1-heimasigur á Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag, þar sem fyrirliðinn Bruno Guimarães tryggði liðinu sigur með marki á 90. mínútu. Þetta var þriðji heimasigur Newcastle á tímabilinu og kærkomin úrslit eftir misjafnt gengi á síðustu vikum.
Newcastle-liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og hefði getað komist yfir strax á fyrstu mínútum. Nick Woltemade átti skot sem hafnaði í stönginni eftir fyrirgjöf frá Kieran Trippier og skömmu síðar var Jacob Murphy nálægt því að tvöfalda forystuna þegar hann þrumaði boltanum í nærstöngina.
Sóknarþunginn bar loks árangur á 18. mínútu þegar Jacob Murphy vann boltann af Calvin Bassey, braust inn á teig og þrumaði boltanum í fjærhornið, þar sem hann small í stönginni og fór inn, 1:0. Glæsilegt mark hjá Murphy.
Fulham skapaði einnig hættu og Nick Pope þurfti að verja vel frá Sander Berge áður en Raúl Jiménez átti skot sem fór naumlega framhjá.
Murphy var nálægt því að bæta við sínu öðru marki undir lok fyrri hálfleiks, þegar Anthony Gordon átti frábæra sendingu inn fyrir vörnina. Murphy komst í svipaða stöðu og í fyrsta markinu, en að þessu sinni var markvörðurinn Bernd Leno vel á verði og varði vel frá honum.
Gestirnir jöfnuðu síðan metin á 56. mínútu þegar Jiménez átti þrumuskot í þverslána og Sasa Lukic fylgdi frákastinu vel eftir með skalla af stuttu færi, 1:1. Lukic og Sven Botman rákust saman í aðdraganda marksins og varð Botman að víkja af velli eftir langa meðhöndlun.
Heimamenn sóttu fast á lokakaflanum og voru ekki búnir að gefast upp. Bruno Guimarães átti skalla yfir markið eftir fyrirgjöf frá Anthony Gordon og skömmu síðar þaut skot hans rétt framhjá. Varamaðurinn Anthony Elanga átti þá skot sem var varið, Sandro Tonali reyndi tvisvar til viðbótar en í bæði skipti varði Bernd Leno í marki Fulham og Joelinton skallaði í hliðarnetið eftir fyrirgjöf frá Kieran Trippier.
Þegar allt virtist stefna í jafntefli tók William Osula, sem hafði komið inn af bekknum, til sinna ráða. Hann braust inn í teiginn og átti fast skot sem Leno varði út í teiginn, en Guimarães var fljótastur að átta sig og þrumaði boltanum í netið af stuttu færi, 2:1.
Með sigrinum lyfti Newcastle sér upp í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 12 stig eftir níu umferðir. Sigurinn kom á mikilvægum tíma fyrir liðið sem hafði unnið Benfica í Meistaradeildinni fyrr í vikunni og virðist nú vera að ná aftur þeirri orku og stöðugleika sem einkenndi liðið á síðustu leiktíð.
Svipmyndir koma inn síðar

