Mikilvægur leikur um helgina – Chelsea kemur í heimsókn

Upphitun: Newcastle United - Chelsea (11. maí kl. 11:00 á St James’ Park).

Baráttan um efstu fimm sætin í ensku úrvalsdeildinni heldur áfram með mikilvægum leik á sunnudaginn þegar Newcastle United tekur á móti Chelsea á St James' Park. Liðin eru bæði með 63 stig og með aðeins þrjá leiki eftir er ljóst að þessi viðureign gæti ráðið úrslitum um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð. Newcastle er í fjórða sæti fyrir leikinn, rétt á undan Chelsea á markatölu.

Nýtt fyrirkomulag tryggir nú fimm efstu liðum úrvalsdeildarinnar sæti í Meistaradeildinni, ásamt sigurvegara Evrópudeildarinnar, sem verður annað hvort Tottenham eða Manchester United. Þetta eykur spennuna enn frekar, enda aðeins sjö stig sem skilja annað sætið og sjöunda sætið að.

Data provided by Scoreaxis

Gengi Newcastle hefur verið öflugt á heimavelli að undanförnu með fimm heimasigra í röð í deildinni. Liðið hefur þó hikstað í síðustu tveimur leikjum á útivelli, tapað 4:1 gegn Aston Villa og gert 1:1 jafntefli við Brighton í síðasta leik.

Chelsea kemur til norðursins með fimm sigra í röð í öllum keppnum, þar á meðal 3:1 sigur á Liverpool. Chelsea hefur hins vegar aðeins unnið einn af síðustu níu deildarleikjum sínum á útivelli.

Newcastle hefur haft betur í sjö af síðustu ellefu leikjum gegn Chelsea á St James' Park. Chelsea vann fyrri leik liðanna í deildinni á heimavelli í lok október, 2:1, en nokkrum dögum síðar hafði Newcastle betur gegn Chelsea, 2:0, á St James’ Park í enska deildabikarnum.

Liðsfréttir

Fabian Schär og Kieran Trippier fengu krampa seint í leiknum gegn Brighton, en verða að öllum líkindum klárir í slaginn um helgina.

Eddie Howe sagði nú á dögunum að Joelinton sé að ná sér vel eftir meiðsli á hné sem upphaflega átti að halda honum frá út tímabilið.

Jamaal Lascelles, Lewis Hall og Matt Targett verða áfram á meiðslalistanum.

Hjá Chelsea mun Enzo Maresca stilla upp sínu sterkasta byrjunarliði á ný, eftir að hafa gert tíu breytingar á byrjunarliðinu í gær í seinni viðureigninni gegn Djurgården í undanúrslitum Sambandsdeildarinnar. Chelsea vann einvígið samanlagt 5:1 og er komið áfram í úrslit.

Líklegt byrjunarlið hjá Chelsea: Sanchez; Caicedo, Chalobah, Colwill, Cucurella; Lavia, Fernandez; Neto, Palmer, Madueke; Jackson.

Líklegt byrjunarlið

Previous
Previous

Dýr­mæt­ur sig­ur gegn Chelsea

Next
Next

Isak bjargaði stigi