Woltemade keypt­ur á met­fé

Newcastle United hefur loksins fengið framherja eftir langa leit í sumar og tilkynnti í dag kaup á þýska sóknarmanninum Nick Woltemade frá Stuttgart. Um er að ræða dýrustu leikmannakaup í sögu félagsins, þar sem upphæðin er talin nema 65 milljónum punda og getur hækkað í 69 milljónir með bónusgreiðslum. Það er meira en greitt var fyrir Alexander Isak árið 2022, þegar hann kom frá Real Sociedad fyrir 63 milljónir punda.

Woltemade, sem er 23 ára gamall og mun bera treyju númer 27 hjá Newcastle, skrifaði undir langtímasamning á St James’ Park. Hann skoraði 17 mörk í 33 leikjum fyrir Stuttgart á síðasta tímabili og var markahæsti leikmaður Evrópumóts U21-landsliða í sumar.

Sóknarmaðurinn, sem er 198 sentímetrar á hæð, hefur leikið tvo landsleiki fyrir Þýskaland og er í landsliðshópnum fyrir komandi undankeppni HM.

„Ég er ótrúlega ánægður að vera kominn til þessa frábæra félags,“ sagði Woltemade eftir undirritun samnings. „Frá fyrsta símtali fann ég að Newcastle hafði mikinn áhuga og stór áform fyrir mig. Það er stórt skref að yfirgefa Þýskaland en mér hefur verið tekið af mikilli hlýju og það er þegar farið að líða eins og ég sé hluti af fjölskyldunni. Ég er spenntur að byrja að spila og skora mörk fyrir liðið.“

Eddie Howe, stjóri Newcastle, fagnar komu leikmannsins. „Við erum afar ánægðir með að hafa lokið þessum kaupum. Nick passar fullkomlega inn í það sem við höfum leitað að; hann er öflugur, tæknilega sterkur og hefur sýnt að hann getur verið mikil ógn í einni sterkustu deild Evrópu. Á sama tíma er hann enn ungur og á mikið inni til að þróast áfram. Við erum mjög spennt að fá hann inn í hópinn.“

Previous
Previous

Newcastle enn án sigurs

Next
Next

Góðar frétt­ir af meiðslum Joelinton og Tonali